Níu hundruð og tveir í tónlistarnámi í Reykjanesbæ
Nemendur í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru nú 902, þar af eru 423 í hljóðfæra- og söngnámi, 234 í forskóla 1 og 245 í forskóla 2. Á biðlista eru 170 umsækjendur. Starfsmenn skólans eru 45 í 34,42 stöðugildum, þar af eru kennarar og stjórnendur 42. Þetta kemur fram í gögnum fræðsluráðs Reykjanesbæjar þar sem Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, mætti og kynnti starfsemi skólans á yfirstandandi skólaári.
Að venju stendur tónlistarskólinn fyrir fjölda tónleika og fleiri viðburðum. Þó nú geti áhorfendur mætt á tónleika verður þeim einnig streymt áfram. Einnig taka nemendur og kennarar þátt í ýmsum viðburðum utan skólans, þar má nefna að þrír nemendur tóku þátt í tónleikum Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 26. september en sveitin var skipuð um 80 ungmennum úr tónlistarskólum landsins.